Húsið – seinni hluti framkvæmda

09/10/2015

Daglegt líf, Heimilið

A22

Þá er að koma helgi og þessi helgi er reyndar merkilegri en margar aðrar því hann Stefán bróðir minn ætlar að gifta sig á morgun. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að fara í giftingar og ég treysti á að þessi verði alveg sérstaklega skemmtileg því þetta er jú bróðir minn sem er að gifta sig og það alveg yndislegri konu. Ég hlakka svo ótrúlega til að gleðjast með þeim og að klæða mig upp og fara í hælaskó og fá rauðvín og hafa gaman (vei!). Það eina sem skyggir á þessa annars frábæru helgi er vitneskjan um að ég þurfi eiginlega að hreinsa þakrennurnar á sunnudaginn en ég er að spá í að bægja þeirri hugsun frá aðeins lengur og láta sem það sé ekki að fara að gerast. Afneitun er málið.

Núna ætla ég hins vegar að sýna ykkur restina af myndunum af framkvæmdunum á húsinu. Næst sýni ég ykkur svo líklega nýja eldhúsið sem er alveg algjört uppáhalds og er þar að auki líklega það herbergi í húsinu sem kemst næst því að vera tilbúið. Úff það er sko ferli að taka svona hús í gegn og ég veit ekki hvort það klárast nokkurntíma.

A23

Innkaupalistinn fyrir allt rafmagnsdótið sem við skiptum um. Ég vildi að ég gæti sagt að þetta hafi verið endanlegur listi en það þarf ótrúlega mikið að stinga í samband og kveikja/slökkva í þessu húsi svo það bættist heldur betur við þetta.

A24

Eldhúsið eftir að það var búið flota og múra. Þvottahúsið var innst og þar var auðvitað niðurfall og gólfið hallaði í átt að því. Við fjarlægðum niðurfallið og flotuðum gólfið svo það væri allt jafnt. Við tókum jafnframt utanáliggjandi lagnir og settum þær inn í vegginn.

A25

Snillingurinn sem málaði allt fyrir okkur að vinna í stofunni. Fyrst vorum við alveg á því að mála sjálf en sem betur fer fengum við málara því það var svo sjúklega mikil málningarvinna. Veggurinn sem hann er að vinna að þarna var t.d. mjög hraunaður og hann heilspartlaði hann (og fleiri veggi) svo hann yrði sléttur. Það skyldi ekki vanmeta hvað góður málari getur gert mikil kraftaverk.

A26

Gunnar dáist að loftinu í stofunni. Það þurfti að styrkja grindina í loftinu því gips er svo miklu þyngra en viðarpanellinn sem var fyrir. Vinnan við loftið var alveg svakaleg og tengdapabbi, Siddi mágur og Gunnar eiga mestan heiðurinn af því að græja það.

A27

Gunnar að fíflast í eldhúsinu. Við rifum alla dyrasíma í burtu því við sáum ekki alveg tilgang með þeim í íbúð á einni hæð.

A28

Gipsplöturnar fyrir loftið komnar í hús. Það voru margir góðir vinir sem hjálpuðu við að bera þær inn.

A29

Gunnar og tengdapabbi að vinna í arninum. Það voru múrsteinsflísar utan á arninum sem við plokkuðum af og hér er verið að byggja grind svo hægt sé að gipsklæða hann.

A30

Gunnar að skrúfa upp grindina í loftinu. Þetta blessaða loft var í alvöru algjör bilun.

A31

Nýtt rafmagn! Rafmagnið í húsinu var í algjöru rugli, það leiddi út og sló út og ég veit ekki hvað. Nýjar rafmagnstöflur og nýtt rafmagn dregið í allt.

A32

Tengdapabbi með plötulyftuna. Þarna er búð að skrúfa gipsplötur upp í loftið en það á enn eftir að spartla og ganga frá.

A33

Gunnar að gipsklæða arininn.

A34

Græjurnar sem voru notaðar til að fræsa hitalagnir í gólfið. Við létum setja gólfhita undir flísar í holinu, gestasalerninu og eldhúsinu.

A35

Bækistöð málarans sem nú er herbergið hennar Auðar Birnu

A36

Hér er verið að setja nýtt hús á úttakið frá eldhúsviftunni. Við erum reyndar ekki enn búin að fjárfesta í eldhúsviftu en úttakið er rosa fínt!

A37

Parketið komið í hús.

A38

Parketlögn hafin. Á þessum tímapunkti var ég gjörsamlega að tryllast úr óþolinmæði og tilhlökkun því innflutningsdagur var að nálgast.

A39

Helgi frændi (og snillingur með meiru) aðstoðaði okkur við að setja upp nýjar hurðir á svefnherbergisganginn.

A40

Stofan. Á þessum tímapunkti var allt í húsinu orðið frekar fínt nema stofan svo allt draslið var þar í einum haug.

A41

Ljósin komin í og tengd í stofunni

A42

Búið að flísaleggja og þar af leiðandi farið að styttast í flutninga.

A43

Eldhúsinnrétting í vinnslu. Á þessum tímapunkti vorum við flutt inn ef ég man rétt en það vantaði enn ýmislegt eins og t.d. allt eldhúsið. Það er rosa stuð að vaska upp í baðkarinu, m.a.s. svo mikið stuð að maður gæti freistast til að borða af Domino’s pappadiskum til að forðast óþarfa uppvask (just sayin’).

Ég veit ekki hvort þessar myndir nái að sýna hvað það er fáránlega mikil vinna að taka hús í gegn og hvað þá þegar það er gert með eins lítilli aðkeyptri vinnu og hægt er. Við hefðum auðvitað aldrei getað þetta nema með mikilli hjálp frá yndislegu fólki og að öllum öðrum ólöstuðum þá var tengdapabbi algjörlega ómetanlegur og sama má segja um Bigga vin hans. Það er í alvöru blessun að eiga svona menn að.

 

 

 

Advertisements

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: