Indverskar lambakótelettur með hrásalati og jógúrtsósu

A5

Það venst alveg ótrúlega fljótt að vera í fæðingarorlofi og satt að segja fljúga dagarnir og vikurnar svo hratt hjá að ég hef pínu áhyggjur af því. Það er merkilega mikið að gera þrátt fyrir að ég sé “ekki að gera neitt”. Litla daman er reyndar alveg virkilega ljúf og góð og sefur vel á næturna svo ég hef allavega enn sem komið er verið mjög heppin og er alls ekki illa sofin. Ég ákvað snemma að detta ekki í þann gírinn að eyða öllum dögum fyrir framan sjónvarpið svo ég er búin að vera mjög dugleg að fara út úr húsi að hitta fólk og er farin að mæta bæði í mömmuleikfimi og á foreldramorgna. Það er bara alveg frábært og mjög gott að hafa nóg að gera.

Þó ég horfi ekki á sjónvarpið öllum stundum þá kveiki ég nú alveg á því öðru hvoru og um daginn kom lítið innskot á Food Network þar sem var verið að elda indverskar lambakótelettur. Mér fannst þetta svo girnilegt að ég fékk það satt að segja á heilann að gera eitthvað þessu líkt og lét loksins verða af því í gærkvöldi. Það má deila um hversu gáfulegt það var að reka Gunnar greyið út að grilla í miðri haustlægðinni en það er nú annað mál. Þetta var alveg rosalega léttur og góður kvöldmatur og ég fílaði sérstaklega vel að vera með svona ferskt majóneslaust hrásalat með lambinu.

A1

A2

A3

A4

Indverskar lambakótelettur með hrásalati og jógúrtsósu
Fyrir 2

Í kóteletturnar:

2 stór hvítlauksrif
1 tsk fennelfræ
1 tsk turmerik
1 tsk kóreander
1/2 tsk svartur pipar
250 g hrein jógúrt
800 g lambakótelettur (5-6 stk)
Salt
Ferskt kóreander (má sleppa)

Í jógúrtsósuna:

250 g hrein jógúrt
1/2 hvítlauksrif
100 g gúrka
Salt og pipar

Í hrásalatið:

150 g ferskt rauðkál (ca. 1/8 úr haus)
3 vorlaukar
1/2 chili
1 msk eplaedik
1 msk hunang
1 msk olía
Salt og pipar

Byrjið á að undirbúa kóteletturnar. Berjið hvítlauksrifin í mortéli þar til þau eru orðin að mauki. Bætið fennelfræjum, turmeriki, kóreander og svörtum pipar saman við og maukið vel saman við í mortélinu. Hrærið jógúrti saman við. Setjið kóteletturnar í stóra skál, hellið jógúrtblöndunni yfir og blandið vel saman. Látið helst standa í 1-2 klst en það má líka sleppa því.

Útbúið næst jógúrtsósuna. Setjið jógúrt í litla skál. Saxið hvítlaukinn mjög smátt og setjið saman við. Rífið gúrkuna með rifjárni og kreistið allan vökva vel úr henni áður en henni er blandað saman við jógúrtið. Hrærið öllu vel saman, saltið og piprið eftir smekk og setjið til hliðar.

Útbúið næst hrásalatið. Rífið rauðkálið niður í strimla. Þægilegast er að nota mandólín eða matvinnsluvél en rifjárn virkar líka. Skerið vorlauk niður í ca. 5 cm strimla og chili líka. Setjið allt í miðlungsstóra skál, bætið eplaediki, hunangi og olíu saman við og blandið vel saman. Saltið og piprið eftir smekk og setjið til hliðar.

Hitið útigrill (eða grillpönnu) þar til það er orðið vel heitt. Setjið kóteletturnar beint á grillið án þess að skafa jógúrtmarineringuna af. Saltið kóteletturnar vel þegar þær eru komnar á grillið. Grillið kóteletturnar í ca 4-5 mínútur á hvorri hlið eða þar til þær eru steiktar í gegn en enn bleikar í miðunni. Stráið söxuðu fersku kóreander yfir (má sleppa) og berið fram með jógúrtsósunni og hrásalatinu.

Advertisements
, , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: