Sykursöltuð grísasteik með kínverskum gljáa og bok choy

05/08/2015

Aðalréttir

A1

Ég er svo gríðarlega þakklát fyrir það hvað ég á yndislega og samheldna fjölskyldu enda veit ég að það er alls ekki sjálfgefið. Nánasta fjölskyldan mín hefur alltaf verið frekar lítil enda eiga foreldrar mínir aðeins tvö systkini hvort en í báðum fjölskyldum hefur sem betur fer verið lagt mikið upp úr því að hittast og halda sambandi. Ein af frænkum mínum er hún Arnheiður en við erum systradætur og er hún svo heppin að bera nafn móðurömmu minnar. Arnheiður býr á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit ásamt eiginmanni sínum og dóttur og þar reka þau sauðfjárbú og ferðaþjónustu.

Aðstaðan á Bjarteyjarsandi er mjög glæsileg og hvet ég alla til að kíkja þar við til að skoða býlið og sérstaklega til að versla hjá þeim beint frá býli. Þau selja alls kyns girnilegar vörur gerðar úr afurðum býlisins en það er allt frá kæfu yfir í lambafillet yfir í beikon! Það sem er að mínu mati sérstaklega áhugavert er að frá árinu 2012 hefur staðið yfir hjá þeim tilraunaverkefni á eldi útigrísa sem lifa á fjölbreyttu fóðri og eru sannarlega hamingjusamir grísir. Á haustin er grísunum slátrað og þá er hægt að kaupa útigrísakjöt frá Bjarteyjarsandi. Ég hvet ykkur innilega til að kynna ykkur starfsemi Bjarteyjarsands á heimasíðu þeirra og kíkja í heimsókn til þeirra. Fyrir þau ykkar sem leggja ekki í það að keyra alla leið inni í Hvalfjörð (það er samt voða stutt – 50 mínútur) þá vil ég líka benda á að þau hafa verið dugleg að selja vörur sínar á matarmarkaði Búrsins svo það er um að gera að hafa auga með þeim þar og reyna að komast yfir gæða grísakjöt.

Allur þessi inngangur hefur verið að leiða okkur að því að tala um sykursöltuðu grísasteikina sem hún Arnheiður var svo góð að gefa mér fyrir dálítið löngu síðan. Ég lofaði henni að ég myndi búa til einhverja góða uppskrift til að gera þessu gæðahráefni góð skil og ég held að mér sé loksins að takast að standa við það. Það mætti nota sömu aðferð fyrir óbreytta rúllu af óreyktri saltaðri skinku en ég hvet ykkur til að reyna að nálgast hið eina sanna útigrísakjöt til að fá sem besta niðurstöðu. Kínverski gljáinn gefur kjötinu aðeins öðruvísi blæ en er samt nógu léttur til að bragðið af kjötinu fái að njóta sín til fullnustu og það að hægelda kjötið gerir það að verkum að það verður mjög safaríkt. Bok choy er kínverskt kál sem er fullkomið meðlæti með kjötinu en það fékk ég í Frú Laugu.

A5

A2

A4

A3

Sykursöltuð grísasteik með kínvrskum gljáa og bok choy

Fyrir grísasteikina:

1 kg sykursöltuð grísasteik (eða önnur óreykt, óelduð skinka)
3 hvítlaukrif
2 þumlar engifer
1/2 appelsína
1/4 bolli sojasósa
1/4 bolli hoi sin sósa
1/2 bolli apríkósumarmelaði
1 msk sesamolía
2 tsk chinese five spice

Fyrir bok choy:

1 msk sesamfræ
400 g bok choy
1 1/2 msk olía (ég notaði repjuolíu)
3 hvítlauksrif, smátt söxuð
1/4 tsk þurrkaðar chiliflögur
1/4 bolli vatn
1 tsk grænmetiskraftur

Fyrir grísasteikina:

Hitið ofninn í 125° C. Setjið hitamæli í grísasteikina þar sem hún er þykkust, setjið kjötið í ofninn og eldið í 2,5 – 3 klst eða þar til kjötið er 60° C heitt.

Gerið gljáann á meðan kjötið er að eldast. Maukið hvítlauksrif og engifer og setjið í pott ásamt safa af appelsínu, sojasósu, hoi sin sósu, apríkósumarmelaði, sesamolíu og chinese five spice kryddi. Hitið að suðu og látið malla í u.þ.b. 5 mínutur eða þar til blandan er farin að þykkna dálítið.

Takið kjötið út úr ofninum við 60°C hita og fjarlægið netið ef það er til staðar. Hækkið hitann á ofninum upp í 200° C. Penslið gljáanum á kjötið og setjið það svo aftur inn í ofn í u.þ.b. 15-20 mínutur eða þar til það hefur náð 65° C hita. Penslið með gljáanum á 5 mínútna fresti.

Fyrir bok choy:

Ristið sesamfræin á heitri pönnu þar til þau eru farin að brúnast lítillega. Setjið til hliðar.

Skerið þykka botninn af bok choy kálinu og losið blöðin öll í sundur.

Setjið olíu á heita pönnuna og bætið hvítlauki og chiliflögum út í. Hrærið stöðugt í þessu í hálfa mínútu eða þar til komin er lykt en hvítlaukurinn er ekki farinn að brúnast. Setjið þá bok choy út á pönnuna og hrærið stöðugt þar til kálið er farið að mýkjast aðeins eða í 1-2 mínútur. Bætið þá vatni og grænmetiskrafti saman við og hrærið þar til vatnið hefur gufað upp, aðrar 1-2 mínútur. Setjið kálið á disk og stráið sesamfræjunum yfir.

Uppskriftina að bok choy aðlagaði ég lítillega frá Williams Sonoma.

Advertisements
,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: