Jerk kjúklingur með tómathrísgrjónum

26/08/2013

Aðalréttir, Meðlæti

A7

Við vorum einu sinni sem oftar með kveikt á Food Network um daginn þegar þátturinn Jonathan Phang’s Caribbean Cookbook byrjaði. Ég hafði verið að horfa á sjónvarpið en fór út að hlaupa og skildi Gunnar eftir með þáttinn í gangi og bjóst satt að segja frekar við því að hann myndi skipta um stöð um leið og ég væri farin. Þegar ég kom til baka kom aftur á móti í ljós að Gunnar hafði horft á allan þáttinn og var alveg heillaður af  öllum jerk matnum sem hafði verið eldaður. Næstu daga talaði hann ekki um annað en hvað hann langaði í jerk kjúkling og á endanum sá ég að ég yrði að reyna að útbúa svona handa honum til að fá frið fyrir þessu jerk tali!

Ég gúglaði einfaldlega uppskrift að jerk kjúklingi og aðlagaði hana aðeins enda fann ég ekki allspice og lagði ekki alveg í að setja þrjá heila scotch bonnet pipra í kryddblönduna (hólí mólí).  Kryddblandan lyktaði dálítið eins og einhverskonar kryddkaka en ég lét baksturslyktina ekki á mig fá heldur hélt mínu striki. Ég verð að segja að útkoman var alveg frábær og fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hef aldrei bragðað neitt í líkingu við þetta og ég meina það á allra besta hátt.  Hefðbundið er víst að bera svona jerk kjúkling fram með hrísgrjónum og baunum en ég ákvað að gera aðeins ferskari hrísgrjónarétt með lauki og tómötum. Það passaði rosalega vel með kjúklingnum.

A1

A2

A3

A4

A5

A6

Jerk kjúklingur
Fyrir 4

1 frekar stór kjúklingur, skorinn niður í bita (eða sambærilegt magn af forskornum bitum)
1 msk svört piparkorn
2,5 tsk kanill
1,5 tsk múskat
1 tsk negull
1 msk timjan (helst ferskt en má vera þurrkað)
6 vorlaukar (notið hvíta hlutann og u.þ.b. helminginn af þeim græna)
1-3 heilir chili piprar (fer eftir smekk)
1 msk púðursykur
1 tsk salt
2 msk sojasósa
1 lime, safinn

Myljið piparkornin niður í duft með mortéli (eða reynið að sirka út sama magn af nýmuldum svörtum pipar). Setjið í matvinnsluvél ásamt kanil, múskati, negul, timjan, vorlauk og chili. Maukið vel og vandlega og hrærið svo púðursykrinum, saltinu, sojasósunni og limesafanum saman við.

Setjið marineringuna í skál ásamt kjúklingabitunum og nuddið vel inn í kjötið. Losið húðina á bitunum aðeins frá svo marineringin fari undir hana líka. Setjið eitthvað yfir skálina og leyfið kjúklingnum að marinerast eins lengi og þið hafið tíma fyrir (ég marineraði í 2 klst en yfir nótt væri best).

Grillið kjúklinginn á meðalheitu grilli. Grillið hann fyrst yfir eldinum þannig að hann blakkerist aðeins en færið hann svo til hliðar og grillið þar til hann er eldaður. Þetta ætti að taka u.þ.b. 25 mínútur.

Uppskriftin er aðlöguð frá The Guardian.

Tómathrísgrjón
Fyrir 4

1/2 bolli hrísgrjón
2 msk olía
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
4 tómatar
1 lime, safi og börkurinn rifinn
1/2 tsk hunang eða agave sýróp
Salt og pipar

Eldið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakka en munið að salta vatnið!

Saxið tómata, rauðlauk og hvítlauk smátt en haldið tómötunum sér. Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þar til hann er farinn að mýkjast. Bætið grjónunum út á pönnuna og steikið í smástund. Setjið tómata, limesafa og limebörk og hunang saman við. Saltið og piprið vandlega og blandið öllu vel saman. Berið fram með kjúklingnum.

Advertisements
, , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: