Margarítukjúklingur

30/06/2013

Aðalréttir, Brauð

A1

Þetta er nú búinn að vera meiri unaðsdagurinn enda ekki annað hægt í svona góðu veðri. Ég er búin að vera ein þessa helgi því Gunnar fór til Kaupmannahafnar með vinum sínum og þó ég vilji helst alltaf hafa hann mér við hlið þá var líka ágætt að taka lífinu með ró í dag og vera dálítið ein með sjálfri mér. Ég upplifði þetta allavega sem rólegan dag sem er merkilegt því ég náði samt að sofa út, fara út að hlaupa, labba niður í bæ og borða á Gló, setjast út á svalir og lesa matarblað, fara að heimsækja glænýtt barn, fara í mat til tengdamömmu og fara í kvöldkaffi til bróður míns. Ágætis dagsverk það!

Ég útbjó þennan kjúkling í vikunni áður en Gunnar fór til Kaupmannahafnar og gerði úr honum tvær mjög ólíkar máltíðir. Lærin og vængina grilluðum við fyrra kvöldið en bringurnar fengu að marinerast í sólarhring og fara svo í eina bestu samloku sem ég hef gert í seinni tíð. Ég mæli virkilega mikið með því að marinera kjúklinginn eins lengi og hægt er því ég fann algjörlega að marineringin hafði unnið sitt verk á bringunum eftir sólarhring.

Sumir geta varla fundið lyktina af tequila án þess að kúgast en ég er svo undarleg að ég elska tequila og fæ alveg fiðring þegar ég finn lyktina. Ég átti í alvöru bágt með mig að hella mér ekki smávegis í glas þegar ég var að útbúa marineringuna því mér finnst þetta bara svo svakalega gott. Þó þið séuð ekki jafn tequila óð og ég þá lofa ég að ykkur mun finnast þessi kjúklingur góður enda er rétt svo hægt að finna keim af því. Gunnari finnst tequila allavega ekki gott en honum fannst kjúklingurinn æði. Ég læt fylgja með uppskriftina að marineringunni og samlokunni en kjúklingurinn var frábær bæði einn og í samloku.

A2

A4

A5

A6

A7

Margarítukjúklingur

Í kjúklinginn:

1 lime
6 stór hvítlauksrif eða 2-3 geiralausir hvítlaukar
1 rauður chili
1/4 bolli tequila
1 tsk ólífuolía
1 tsk Maldon salt
Nýmulinn svartur pipar
1 meðalstór kjúklingur

Í samlokuna:

1/4 bolli létt majones
1/4 bolli 10% sýrður rjómi
1 lime, börkurinn fínt rifinn og safinn af helmingnum
1/2 tsk reykt paprika
1/4 – 1/2 tsk Maldon salt
1/2 tsk hvítlauksduft
4 sneiðar af góðu brauði
Ólífuolía
2 tómatar (eða handfylli af kirskuberjatómötum) í sneiðum
Handfylli af ferskum kóreander, gróft söxuðum
1/5 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
2 marineraðar kjúklingabringur, skornar í sneiðar

Í kjúklinginn:

Rífið börkinn af lime-inu og kreistið safann úr því ofan í stóra skál. Setjið hvítlaukinn í gegnum hvítlaukspressu eða saxið mjög smátt og setjið saman við. Fræhreinsið chili, saxið hann smátt og setjið saman við ásamt tequila, ólífuolíu, salti og svörtum pipar.

Bútið kjúklinginn niður, veltið honum vandlega upp úr marineringunni og leyfið honum að standa í allavega 2 klst en helst í heilan sólarhring. Grillið kjúklingabitana þar til þeir eru gegnsteiktir, það tekur dálítið mislangan tíma eftir því hvaða bita er um að ræða (u.þ.b. 12-18 mínútur).

Í samlokuna:

Blandið saman majonesi, sýrðum rjóma, limeberki og safa, reyktri papriku, salti og hvítlauksdufti.

Setjið smá ólífuolíu á brauðsneiðarnar og bregðið þeim á grillið þannig að þær ristist aðeins. Smyrjið sósunni á brauðsneiðarnar og setjið svo kjúkling, tómata, kóreander og lauk ofan á. Lokið samlokunni og njótið :)

Advertisements
, , , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

2 Comments on “Margarítukjúklingur”

  1. helenagunnarsd Says:

    Ó hvað þetta er girnilegt.. Og snilldar hugmynd að marineringu. Gæti hugsanlega nauðsynlega þurft að fjárfesta í Tequila fyrir hana ;)

    Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: