Ofnbakaðar ítalskar kjötbollur

04/06/2013

Aðalréttir

A5

Þá er ég komin aftur í góða veðrið á Íslandi og finnst það satt að segja ekki leiðinlegt. Þó mér þyki kínverskur matur mjög góður og ég hafi yfirleitt fengið fínan mat úti þá verð ég að viðurkenna að ég var orðin dálítið þreytt á því að borða kínverskt í öll mál. Við vinnufélagarnir vorum farin að láta okkur dreyma um steik með bernaise sósu, Hlölla og m.a.s. salatbarinn í vinnunni og ræddum það okkar á milli hver fyrsta máltíðin á Íslandi yrði. Það fyrsta sem ég fékk mér þegar ég kom heim var ristað brauð með danskri spægipylsu og uppáhellt kaffi (unaður eftir tveggja vikna instant kaffidrykkju) og þó það hljómi kannski ekki merkilega þá fannst mér það svo gott að ég ranghvolfdi augunum af ánægju.

Ekki nóg með að ég hafi verið farin að þrá venjulegan mat heldur var Gunnar líka farinn að sakna þess að fá heimaeldaðan mat svo það var alveg ljóst að það þurfti að elda eitthvað gott fyrsta kvöldið mitt heima. Ég tók frí í gær og eyddi deginum á kaffihúsi að kjafta við góðar vinkonur en gleymdi alveg að hugsa út í matinn svo við Gunnar enduðum á því að labba við í Bónus á Laugaveginum á leiðinni heim með ekkert plan. Það var ekkert sérstaklega sniðugt enda var brjálað að gera og allt að klárast en það var til hakk svo það varð úr að gera ofnbakaðar ítalskar kjötbollur. Það var svo ekki einu sinni spurning að opna gott rauðvín til að drekka með enda eru mánudagar alveg jafn góðir rauðvínsdagar og aðrir dagar. Ég veit ekki hvort það var söknuður eftir góðum mat eða rauðvínið eða ánægjan yfir að deila loksins máltíð saman en okkur þóttu þessar kjötbollur svo góðar að við sleiktum diskana nánast í lokin.

A1

A2

A3

Ofnbakaðar ítalskar kjötbollur
Fyrir 4

Í sósuna:

1 msk jómfrúrolía
1 laukur, smátt saxaður
3 stór hvítlauksrif, smátt söxuð
600 g tómatar, skornir í bita
2 msk tómatmauk
190 g pestó úr sólþurrkuðum tómötum
1/3 bolli (80 ml) rauðvín
1/2 – 1 msk agave sýróp eða sykur
Salt og pipar

Í kjötbollurnar:

2 brauðsneiðar
1/2 bolli mjólk
2 hvítlauksrif, mjög smátt söxuð
6 msk fersk steinselja, smátt söxuð
2 eggjarauður
900 g nautahakk
Salt og pipar
1 msk ólífuolía
60 – 100 g nýrifinn parmesan ostur (eftir smekk)

Hitið ofninn í 180° C.

Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þar til hann er orðinn mjúkur en ekki farinn að brúnast. Bætið tómötum, tómatmauki, pestói, rauðvíni og agave sýrópi saman við. Saltið og piprið og leyfið að malla í a.m.k. 15 mínútur eða þar til tómatarnir hafa nokkurnveginn brotnað niður.

Fjarlægið skorpuna af brauðinu og rífið það niður í litla bita. Setjið í litla skál, hellið mjólkinni yfir og leyfið að standa í nokkrar mínútur. Setjið hvítlauk, steinselju, eggjarauður og nautahakk í skál. Kreistið mjólkina vandlega úr brauðinu og bætið því svo saman við. Saltið og piprið og blandið svo öllu vel saman með höndunum.

Hitið ólífuolíu á pönnu. Mótið nokkuð stórar kjötbollur úr hakkblöndunni og steikið á pönnunni þar til bollurnar eru farnar að brúnast. Setjið bollurnar í eldfast mót, hellið sósunni yfir og dreifið parmesan ostinum að lokum yfir. Setjið inn í ofn og bakið í 20-30 mínútur eða þar til osturinn er farinn að brúnast.

Athugasemdir:

Ég bar kjötbollurnar fram með hvítlauksbrauði en þegar ég vil gera virkilega vel við okkur þá bý ég til risotto milanese til að hafa með. Það er draumur!

Advertisements
,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

2 Comments on “Ofnbakaðar ítalskar kjötbollur”

  1. Nanna Says:

    Ómægaaaaaad. Mig langar svo í þessar kjötbollur!

    Reply

  2. kristjanagudjonsdottir Says:

    Vááá hvað mig langar í svona. Kvöldmaturinn á morgun, tvímælalaust! :)

    Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: