Paella með chorizo, kjúklingi og smokkfiski

A5

Þetta er búinn að vera meiri letidagurinn. Við sváfum allt of lengi, kíktum í heimsókn til mömmu hans Gunnars og gerðum svo bara ekki neitt það sem eftir var dags. Mér finnst reyndar fínt að láta það eftir mér að gera ekki neitt á þessum auka frídögum sem koma núna hver á eftir öðrum. Ég var þó búin að lofa sjálfri mér að elda eitthvað gott í rólegheitum þar sem við höfum verið á svo miklum hlaupum síðustu daga að það hefur ekki gefist tími í metnaðarfyllri eldamennsku en að henda einhverju á grillið.

Ég keypti mér paellu pönnu í Kokku í fyrrasumar, einfaldlega af því ég átti gjafabréf sem var að renna út og ég vissi ekki hvað ég átti að gera við það. Ég er almennt séð ekkert hrifin af því að eiga mjög sérhæfðar eldhúsgræjur en þar sem það fer ekki mikið fyrir pönnunni og hún kostaði að mig minnir innan við þrjú þúsund krónur þá lét ég þetta eftir mér. Mamma gerði oft paellu þegar ég var yngri og mér fannst hún alltaf svo svakalega góð hjá henni en ég hafði þangað til í dag aldrei prófað að gera hana sjálf. Ég hef alltaf miklað paellugerð dálítið fyrir mér og var svo hrikalega löt í dag að ég þurfti að taka á stóra mínum til að hafa mig í eldamennskuna. Það kom svo í ljós að þetta er alveg gríðarlega einfalt og fljótlegt og almáttugur minn hvað þetta var gott!

A1

A2

A3

A4

A6

A9

A7

Paella með chorizo, kjúklingi og smokkfiski
Fyrir 4-6

3 paprikur (eða grillaðar paprikur í krukku)
1 rauðlaukur
6 stór hvítlauksrif (eða 3 geirlausir hvítlaukar)
1 msk timjan
2 tsk paprikukrydd
1-2 tsk reykt paprikukrydd
400 g dós niðursoðnir tómatar
1 tsk Maldon salt (eða 1/2 tsk borðsalt)
1/2 tsk nýmulinn pipar
625 ml vatn
2 teningar kjúklingakraftur
10 saffranþræðir
1 msk ólífuolía
170 g chorizo pylsa, himnan fjarlægð og pylsan sneidd
300-400 g úrbeinuð kjúklingalæri
400 g risotto hrísgrjón (arborio eða sambærileg)
60 ml hvítvínsedik
300 g smokkfiskur í hringjum
Steinselja

Hitið ofninn í 200°C.

Ef þið notið venjulegar paprikur, nuddið þá ólífuolíu utan um þær og setjið þær inn í ofn í u.þ.b. 30-40 mínútur eða þar til húðin á þeim fer að verða svört. Setjið þær heitar í plastpoka, lokið fyrir og leyfið að standa í 15 mínútur. Takið húðina af þeim af (hún ætti að losna mjög auðveldlega frá) og skerið þær svo í strimla og setjið til hliðar. Einnig er hægt að kaupa grillaðar paprikur í krukku.

Setjið rauðlauk, hvítlauk, timjan, paprikukrydd, reykt paprikukrydd, niðursoðna tómata, salt og pipar í matvinnsluvél (eða blandara). Maukið þar til blandan er orðin alveg slétt og setjið til hliðar.

Hitið vatn í potti ásamt kjúklingakrafti þar til krafturinn hefur leyst upp. Takið af hitanum, setjið saffranþræðina saman við vatnið og setjið til hliðar.

Setjið ólífuolíu á pönnu sem má fara í ofn og hitið hana vel. Setjið chorizo pylsu á pönnuna og steikið í u.þ.b. 2 mínútur. Setjið kjúklinginn á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til hann er farinn að brúnast.

Bætið hrísgrjónunum út á pönnuna, steikið áfram í 1 mínútu og hrærið í á meðan. Bætið hvítvínsediki út í og hrærið í þar til vökvinn er horfinn. Setjð tómatblönduna, kraftblönduna og paprikurnar þá á pönnuna og blandið öllu vel saman. Reynið að koma því þannig fyrir að kjúklingurinn, pylsurnar og paprikurnar séu dreifðar nokkuð jafnt um pönnuna. Fáið suðuna til að koma upp, lækkið hitann svo aðeins (ég hafði hitann á 6/9) og leyfið þessu að malla í 10 mínútur. Ekki hræra!

Setjið pönnuna inn í ofn og eldið þar í 15 mínútur. Takið pönnuna út, dreifið smokkfiskinum jafnt yfir og reynið að ýta honum dálítið ofan í réttinn. Setjið aftur inn í ofn í 5 mínútur og leyfið svo að standa í 5 mínútur á borðinu með álpappír yfir.  Skerið niður steinselju og dreifið yfir áður en rétturinn er borinn fram.

Athugasemdir:

Best er auðvitað að nota paellu pönnu en nóg er að  nota nokkuð grunna og breiða pönnu sem má fara inn í ofn.

Reykt paprika getur verið dálítið sterk svo þess vegna tiltók ég að magnið ætti að vera 1-2 tsk. Ég notaði 2 tsk af reyktri papriku frá Pottagöldrum og hún er nokkuð sterk. Rétturinn varð þó ekki logandi sterkur, bara með hæfilegt “kick”.

Ég fékk chorizo pylsu hjá Pylsumeistaranum en það er ekkert heilagt að nota chorizo, kjúkling og smokkfisk. Það mætti líka nota rækjur, krækling eða einhverja góða pylsu.

Uppskriftin er talsvert aðlöguð frá “Basic paella” úr 61. tölublaði Donna Hay Magazine.

Advertisements
, , , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

One Comment on “Paella með chorizo, kjúklingi og smokkfiski”

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: