Kartöflur með ofnbökuðum blaðlauki og beikoni

16/04/2013

Meðlæti

A3

Ókei svo ég er búin að vera veik. Ég sem verð aldrei veik! Ég get sagt ykkur það að ég hef bara enga þolinmæði fyrir svona vitleysu og ég er alveg gjörsamlega að tryllast úr eirðarleysi. Svo mikið að tryllast að ég fór í vinnuna í morgun en þurfti svo að hrökklast aftur heim um hádegi gjörsamlega búin á því. Vei. Ég er búin að horfa allt of mikið á Food Network og spila svo mikið af heimskulegum iPad leikjum að ég veit varla lengur hvort mig sundlar vegna veikinda eða ofspilunar. Ég er þó ekki frá því að mér sé farið að líða betur núna svo þess vegna læt ég vaða að skrifa eina létta færslu.

Við vorum með fólk í mat á laugardagskvöldið og mig vantaði svo agalega einhverjar góðar kartöflur til að hafa með steikinni. Fyrsta hugmyndin var að hafa kartöflusalat en þar sem mér fannst hefðbundið kartöflusalat ekki alveg passa með steik og heitri sósu þá fór ég að hugsa hvort ég gæti ekki gert majoneslaust kartöflusalat. Einhverra hluta vegna flaug í huga mér kjúklingaréttur sem ég gerði fyrir löngu síðan eftir uppskrift frá Smitten Kitchen (sem fékk uppskriftina hjá Suzanne Goin) en þar var blaðlaukur bakaður með hvítvíni og borinn fram með kjúklingnum (rétturinn sjálfur er svakalega góður en tók grínlaust heilan dag í framkvæmd svo ég á aldrei eftir að gera hann aftur). Mér datt sem sagt í hug að gera eitthvað svipað, skera blaðlaukinn svo niður og hræra honum saman við kartöflurnar… já og af hverju ekki að henda smá beikoni saman við? Smá auka beikon hefur aldrei skaðað neinn. Þetta var svaka gott og ekkert síðra í hádegismat daginn eftir með spældu eggi ofan á.

A1

A2

A4

A5

Kartöflur með ofnbökuðum blaðlauki og beikoni

3 vorlaukar
4 msk + 1/4 bolli jómfrúrolía
1 msk dijon sinnep
1/2 bolli hvítvín
1/2 bolli vatn
2 tsk þurrkað rósmarín
1 kraftteningur
1 kg af kartöflum
200 g beikon
1 sítróna
Salt og pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið efsta hluta blaðlauksins af (skiljið smávegis af grænu eftir), skerið hann svo í tvennt langsum og skolið hann vel undir köldu vatni. Það getur verið sandur í blaðlauknum svo þetta skref er mjög mikilvægt. Hristið vatnið af blaðlauknum og saltið svo og piprið sárið.

Hitið 2 msk af jómfrúrolíu á stórri pönnu og setjið svo blaðlaukinn á pönnuna með sárið niður. Steikið hann í u.þ.b. fjórar mínútur eða þar til hann er farinn að brúnast. Saltið og piprið hliðina sem snýr upp, snúið blaðlauknum svo við og steikið í u.þ.b. 4 mínútur í viðbót. Raðið blaðlauknum í eldfast mót með sárið upp.

Setjið 2 msk af jómfrúrolíu í pönnuna sem notuð var til að steikja blaðlaukinn og hitið.  Bætið dijon sinnepi, hvítvíni, vatni, rósmaríni og krafti út í og hrærið vel í þar til allt er blandað saman og krafturinn hefur leyst upp. Hellið blöndunni yfir blaðlaukinn og bakið hann í 30 mínútur eða þar til hann er eldaður í gegn.

Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni, skrælið og skerið niður í hæfilega bita (suðutími fer eftir stærð kartaflanna).

Steikið beikonið á pönnu þar til það er orðið stökkt og skerið það svo smátt niður. Ég notaði beikonkurl til að flýta fyrir mér.

Setjið kartöflurnar í stóra skál ásamt beikoninu. Takið blaðlaukinn upp úr eldfasta mótinu, skerið hann í nokkuð litla bita og setjið hann svo saman við kartöflurnar ásamt vökvanum sem er í eldfasta mótinu. Setjið 1/4 bolla af jómfrúrolíu og safann úr sítrónunni saman við og hrærið öllu vandlega saman. Saltið og piprið eftir smekk.

Uppskriftin að blaðlauknum er talsvert aðlöguð frá Smitten Kitchen.

Advertisements
, ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

2 Comments on “Kartöflur með ofnbökuðum blaðlauki og beikoni”

  1. helenagunnarsd Says:

    Nammii..! Laukur, beikon og kartöflur. Næstum hin heilaga þrenna :)

    Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: