Kaeng Khiaw-Waan Kai

A7

Ég kom heim frá Kanada á sunnudagsmorguninn og þó ég væri frekar þreytt þá átti ég alveg æðislegan dag. Gunnar bauð mér í brunch á Snaps í tilefni konudagsins og svo röltum við um miðbæinn með smá viðkomu á Kaffitári til að hrista flugþreytuna úr mér. Við enduðum á því að labba einn hring í Kolaportinu sem mér finnst alltaf jafn skemmtilegt þó ég kaupi sjaldnast eitthvað. Matarhornið finnst mér að sjálfsögðu áhugaverðast og þar er komið mikið úrval af asískum vörum sem vakti áhuga minn. Ég keypti mér dós af grænu karrímauki og fletti svo upp í stóru tælensku matreiðslubókinni minni þegar heim var komið til að finna uppskrift sem ég gæti notað það í.

Þetta karrí er mjög einfalt í framkvæmd en það þarf að eiga hráefni sem fæst ekki hvar sem er. Ég er svo heppin að hafa búðina Mai Thai nánast á næsta horni og þar eru til alveg ótrúlegustu hlutir. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá að þar voru til bæði ferskt galangal og lítil eggaldin en ég var alveg viðbúin því að þurfa að skipta því út fyrir engifer og venjulegt eggaldin. Það eina sem vantaði upp á var að tælenska basilið var búið svo ég keypti ferskan kóreander í staðinn. Ef þið finnið tælenskt basil þá mæli ég hiklaust með því.

A8Kaeng Khiaw-Waan Kai (grænt tælenskt karrí með kjúklingi)
Fyrir 3

1/2 msk olía
1-2 msk grænt karrímauk
450 g kjúklingabringur (eða úrbeinuð læri), skornar í strimla
400 ml létt kókosmjólk (1 dós)
2,5 msk fiskisósa
1 msk pálmasykur (eða annar sykur)
200 g lítil eggaldin, skorin í átta bita
50 g galangal, skorið í mjóa strimla
7 lime lauf, helminguð
Handfylli af tælensku basil (eða kóreander)
1 chilipipar (má sleppa), skorinn þunnt

Hitið olíu á pönnu, setjið karrímaukið saman við og steikið í smástund eða þar til það er farið að lykta vel. Setjið kjúklingastrimlana á pönnuna og steikið allt í nokkrar mínútur. Setjið kókosmjólk, fiskisósu, pálmasykur, eggaldin, galangal og lime lauf út í og eldið við miðlungshita þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og eggaldinið er farið að mýkjast dálítið (u.þ.b. 5-10 mínútur).

Stráið tælensku basil (eða kóreander) yfir ásamt chili ef hann er notaður og berið fram með hrísgrjónum.

Athugasemdir:

Galangal (eða tælenskt engifer) er líkt venjulegu engiferi í útliti og hefur sömu eiginleika en hefur þó allt annan keim. Mér finnst vera dálítil grenilykt af þvi ef það segir ykkur eitthvað um bragðið. Ef þið finnið galangal ekki þá má nota venjulegt engifer en það mun gefa réttinum annað bragð. Konan í búðinni benti mér á að sneiða afganginn þunnt og frysta því þannig væri auðvelt að nota smáræði í einu.

Lime laufin eru algjör nauðsyn í þennan rétt en ég keypti stórt box af þeim fyrir nokkra hundraðkalla í Mai Thai. Þar sem þau eru geymd í frysti þá endast þau mjög lengi.

Grænt karrímauk er mjög missterkt. Ég setti 2 msk í réttinn og hann var alveg logandi sterkur þ.a. ég mæli með að þið smakkið karrímaukið aðeins áður en þið notið það til að meta hversu sterkt það er.

Uppskriftin er er breytt útgáfa af Kaeng Khiaw-Waan Kai úr bókinni The Food Of Thailand – A Journey For Food Lovers.

Advertisements
, , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: