Yorkshire búðingur með silungamauki

24/10/2012

Forréttir, Snarl

Þá eru mamma og pabbi farin frá okkur og komin alla leið heim á Akranes. Það var alveg æðislegt að hafa þau hjá okkur og sem betur fer hittumst við fljótt aftur þegar vð komum heim um jólin. Þau voru alveg ferlega pen í því að versla (og hljóta að hafa verið með minnstan farangur af öllum Íslendingunum í fluginu heim) en við kíktum auðvitað aðeins í búðir enda ekki annað hægt í Ameríkunni. Ég held að Gunnari hafi þótt nóg um hvað ég notaði tækifærið til að versla en það er nú annað mál!

Ég eignaðist sem sagt ýmislegt fallegt síðustu tvær vikur eins og Vince Camuto pils (bara $15 í TJ Maxx!) og Calvin Klein kjól (á útsölu á $44 í Dillard’s!) sem voru á svo góðum díl að það hefði verið glæpsamlegt að kaupa það ekki (*hóst*). Við fórum líka í bókabúð og þar sá ég bókina Jamie’s Great Britain sem ég bókstaflega varð að eignast. Ég veit að það er voðalega týpískt að kaupa Jamie bækur en þær eru bara svo fallegar og maturinn svo góður að ég stenst þær aldrei.

Það virðist vera einhver mýta í gangi um það að breskur matur sé vondur en ég get sko sagt ykkur að það er mesta vitleysa og þessi bók er alveg stútfull af réttum sem mig dauðlangar að prófa. Ég vissi um leið og ég sá þessa uppskrift að Yorkshire búðing með silungamauki að ég yrði að prófa hana. Nú er ég almennt ekki hrifin af heitreyktum fiski en bragðið er alls ekki afgerandi hér heldur gefur fiskurinn bara milt reykt bragð sem er mjög gott. Okkur fannst þetta öllum algjört æði og þetta verður sko pottþétt á forréttaseðlinum mínum héðan í frá.

Yorkshire búðingur með silungamauki

Í maukið:

225 g hreinn rjómaostur
3-6 msk rifin piparrót (fer eftir því hversu sterk hún er)
1 sítróna, rifinn börkur og safinn af helmingnum
Lúka af ferskum graslauk, smátt saxaður
Salt og pipar
225 g reyktur silungur (helst heitreyktur en þó ekki endilega)
Ólífuolía

Í Yorkshire búðinginn:

Olía (ég notaði hnetuolíu)
4 stór egg
2 bollar hveiti
200 ml mjólk
Salt og pipar

Maukið:

Blandið rjómaosti, piparrót, fínt rifnum sítrónuberki og safanum af hálfri sítrónunni vel saman í skál. Blandið megninu af graslauknum saman við, saltið og piprið og smakkið svo. Athugið að blandan á að vera bragðsterk svo það er alveg óhætt að salta og pipra meira og setja meiri piparrót út í ef þess þarf.

Rífið silunginn lauslega út í með höndunum og passið að skilja bein og roð frá. Blandið varlega saman við. Setjið í skál, dreifið afgangnum af graslauknum yfir og sáldrið smáræði af ólífuolíu yfir.

Yorkshire búðingurinn:

Hitið ofninn í 250°C.

Takið muffins form og setjið smáræði af olíu í botninn á hverju hólfi þannig að hann sé hulinn. Setjið formið inn í heitan ofninn og leyfið olíunni að hitna alveg þar til það fer að rjúka úr henni (10-15 mín).

Á meðan olían er að hitna skulið þið þeyta egg, hveiti, mjólk og smáræði af salti og pipar vel saman í skál.

Takið formið varlega úr ofninum og verið fljót að hella deiginu í hólfin þ.a. að þau fyllist næstum því. Gott er að vera búin að hella deiginu í könnu til að þetta gangi hraðar og betur fyrir sig. Setjið formið aftur í ofninn og bakið í 10-12 mínútur eða þar til búðingarnir hafa lyft sér og eru gylltir. Ekki opna ofninn fyrr en rétt undir lokin því annars falla búðingarnir!

Berið búðingana fram heita með maukinu og jafnvel sítrónubátum.

Uppskriftin er aðlöguð úr Jamie’s Great Britain og er einnig í boði hér.

Advertisements
, ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

4 Comments on “Yorkshire búðingur með silungamauki”

  1. ingunnogsiggi Says:

    “Þau voru alveg ferlega pen í því að versla (og hljóta að hafa verið með minnstan farangur af öllum Íslendingunum í fluginu heim)”

    Hvar eru ég og Siggi á þessum lista ykkar? :)

    Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: