Hrískaka með bananarjóma

03/10/2012

Kökur

Mér finnst ég nú pínu rugluð að tala um meistaramánuð í gær og birta svo kökuuppskrift í dag! Þannig er nú mál með vexti að Gunnar átti afmæli í gær og þó hann sé ekki mikill kökumaður þá er ein kaka sem honum finnst ægilega góð og það er hrísterta með bananarjóma. Mamma hans hefur gert svona köku handa honum á afmælisdaginn svo árum skiptir og er það eina hefðin sem Gunnar hefur í kringum afmælið sitt. Þar sem mamma hans er fjarri góðu gamni á Íslandi þá varð mér það ljóst að ef Gunnar ætti að fá afmæliskökuna sína þá þyrfti ég að gera hana. Nú er ég almennt þeirrar skoðunar að það sé slæm hugmynd að eiga við klassískar mömmuuppskriftir en þetta var neyð!

Ég á alveg einstaklega góða tengdamóður sem var að sjálfsögðu til í að deila því með mér hvernig þessi dýrðarkaka er samsett. Uppskriftin sjálf var ekki svo nákvæm nema þegar kom að botninum en þar var uppskriftin of nákvæm fyrir mig sem á enga eldhúsvog hérna úti. Ég notaðist því við uppskrift að hvítum botni sem ég fann á Smitten Kitchen og aðlagaði magnið af rjómanum og hrísblöndunni til að passa við þann botn. Botninn var reyndar alveg gríðarlega góður og mjúkur og alveg fyrirhafnarinnar virði. Ég veit nefnilega að það er freistandi að kaupa tilbúinn svampbotn!

Þetta er klassísk og góð kaka sem er held ég alltaf jafn vinsæl enda hef ég ekki hitt neinn sem finnst svona hrís- og súkkulaðiblanda vond. Eina vandamálið sem ég stend frammi fyrir er að það er heil kaka mínus tvær sneiðar inni í ísskáp og meistaramánuður leyfir ekki meira kökuát! Talandi um freistingar… úff.

Hrískaka með bananarjóma

Í svampbotninn:

2 bollar + 1 msk hveiti
1 tsk lyftiduft
1 1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
113 g smjör, við stofuhita
1 bolli sykur
1 tsk vanilluextract (eða vanilludropar)
2 stór egg, við stofuhita
1 bolli súrmjólk

Í hrísblönduna:

150 g suðusúkkulaði
100 g smjör
Sirka 150 g Rice Crispies
6 msk hlynsýróp (eða annað sýróp)

Í rjómann:

375 ml rjómi
2 bananar

Fyrir svampbotninn:

Hitið ofninn í 175°C.

Smyrjið hringlaga smelluform vel. Klippið út smjörpappír svo passi í botninn á forminu, setjið pappírinn í botninn og smyrjið svo pappírinn.

Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman í skál.

Þeytið smjör og sykur saman í stórri skál þar til ljóst og létt. Þeytið þá vanillunni saman við. Bætið eggjunum við einu af öðru og blandið vel á milli. Bætið súrmjólkinni út í og rétt blandið saman. Athgið að blandan mun líta út fyrir að vera í kekkjótt.

Bætið hveitiblöndunni við í þremur skömmtum og blandið hverjum skammti rétt svo saman við. Ekki ofhræra deigið.

Hellið deiginu í smelluformið, jafnið það út og leyfið því svo að detta úr nokkurra sentímetra hæð á borðið til að losa um loft.

Bakið þar til kakan er orðin gullin og tannstöngull sem er stungið í hana kemur hreinn út, u.þ.b. 30-35 mínútur. Kælið í forminu í 10 minútur, losið svo varlega úr forminu og leyfið kökunni að kólna algjörlega (í u.þ.b. klukkutíma).

Fyrir súkkulaðiblönduna:

Setjið suðusúkkulaði, smjör og sýróp í pott eða pönnu og bræðið saman við vægan hita. Bætið Rice Crispies varlega út í þangað til blandan verður hæfilega þykk en ekki of þurr. Það er erfitt að gefa upp nákvæmt magn af Rice Crispies enda skiptir það ekki öllu svo lengi sem það er allt þakið súkkulaði.

Skerið út hring í smjörpappír sem er jafnstór smelluforminu sem þið bökuðuð svampbotninn í (eða notið bara pappírinn sem þið notuðuð þá). Dreifið hrísblöndunni jafnt á smjörpappírinn, stingið inn í kæli og kælið í u.þ.b. klukkutíma

Fyrir rjómann:

Þeytið rjómann. Stappið bananana vel saman. Blandið banönunum varlega saman við rjómann.

Til að setja saman:

Setjið svampbotninn á kökudisk, dreifið rjómanum vandlega yfir og setjið svo hrísbotninn ofan á.

Uppskriftin er aðlöguð frá tengdamóður minni en svampbotninn er fenginn frá Smitten Kitchen.

Advertisements
, ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

5 Comments on “Hrískaka með bananarjóma”

 1. Kristín Auður Harðardóttir Says:

  Rosalega lítur þetta vel út hjá þér frænka ;-) mamma gerir oft hrískökur en þá með blönduðum ávöxtum í rjóma á milli…… algjörlega ómissandi á hátíðarborð, skil Gunnar vel. Þú getur svo fryst afganginn og notað við ýmis tækifæri ;-) Mikið er hann Gunnar vel giftur ;-) ;-) ;-)

  Reply

  • Kristín Gróa Says:

   Já það er auðvitað hægt að frysta kökuna, ekki datt mér það í hug! Það hljómar líka vel að setja ávexti í rjómann, ég prófa það kannski einhverntíma ef Gunnar tekur það í mál ;)

   Reply

 2. ingunnogsiggi Says:

  Ekkert smá girnilegt…ég þarf að prófa þessa uppskrift :)
  Ég sendi alltaf Sigga með afganga í vinnuna….vorum einmitt með afmælisboð á sunnuadginn og það var heil tvöföld súkkulaðikaka í afgang mínus 1 sneið, fullt af muffins og 2 skyrkökur……þess má geta að Siggi kom bara með kökudiskinn og spaðann heim úr vinnunni…..var fljótt að klárast…mæli með því og baka svo bara glænýtt þegar mánuðurinn er búinn :)

  Reply

Trackbacks/Pingbacks

 1. Hrískökuterta | Eldhússystur - 14/06/2013

  […] sá á íslensku bloggi hrísköku með rjóma, bönunum og svampbotn. Ég varð alveg veik, ég varð að prufa þessa. […]

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: