Franskar

30/07/2012

Meðlæti

Í dag eigum við Gunnar brúðkaupsafmæli og það meira að segja okkar fyrsta. Mikið óskaplega líður tíminn hratt þegar það er gaman :) Þar sem mér þykir nú ekkert leiðinlegt að halda upp á allt mögulegt og ómögulegt þá héldum við upp á þennan merkisdag með því að eyða helginni á Miami Beach. Við gistum á alveg svaka smörtu hóteli, borðuðum æðislegan mat, drukkum gott vín, gengum um og gerðum mest lítið annað en að njóta borgarinnar og félagsskaps hvors annars. Það verður nú að segjast að það er gaman að yfirgefa rólegheitin hérna í Vero öðru hvoru og upplifa borgarstemninguna með öllu því sem hún hefur upp á að bjóða.

Það var sem sagt Miami ferðinni að kenna að ég gleymdi algjörlega að segja ykkur frá frönskunum sem ég gerði í síðustu viku en þær eiga nú alls ekki skilið að gleymast. Ég hef lesið ótalmargar lýsingar á því hvernig á að gera hinar fullkomnu franskar heima en það var ekki fyrr en ég fór eftir aðferð sem er lýst í miklum smáatriðum á Serious Eats sem ég varð ánægð með niðurstöðuna. Til að gera langa sögu stutta þá snýst þetta í raun um að forsjóða, djúpsteikja og djúpsteikja aftur. Það er allt og sumt.

Þetta er vissulega meira vesen en að skella poka af frosnum frönskum í djúpsteikingarpott eða inn í ofn en mér finnst það bara ágætt. Er ekki bara betra að takmarka frönskuát við heimagerðar franskar? Það er nógu mikið vesen til að ég nenni því sjaldan en franskarnar eru líka miklu betri þegar ég nenni. Í mínum huga er það win-win. Betri franskar sjaldnar = frönskuáts notið betur og mjaðmirnar stækka síður!

Þetta byrjar allt á bökunarkartöflum.

Skræla og skola.

Skera niður í nokkuð jafnstórar franskar. Það er til sérstakir frönskuskerar en ég vil helst takmarka eldhúsáhöld sem þjóna bara einum tilgangi og eru sjaldan notuð. Hnífur virkar mjög vel :)

Setja í vatn með ediki og sjóða.

Kæla í 5 mínútur og djúpsteikja svo.

Kæla. Á þessum tímapunkti má frysta franskarnar og geyma þar til síðar. Á Serious Eats er jafnvel mælt með að það sé gert. Ég frysti helminginn til að eiga síðar en lét afganginn bara standa í hálftíma.

Þegar á að borða franskarnar eru þær djúpsteiktar þar til þær eru alveg eldaðar. Eftir standa franskar sem eru stökkar að utan, mjúkar að innan og gríðarlega bragðgóðar!

Franskar

1 kg bökunarkartöflur
2 msk edik
Sjávarsalt
2 lítrar hnetuolía (eða canola olía)

Skrælið kartöflur og skolið. Skerið niður í jafnar “frönskur”.

Setjið kartöflurnar í pott og vatn þannig að fljóti yfir kartöflurnar. Bætið 2 msk af salti og ediki út í. Látið suðuna koma upp og sjóðið svo í 10 mínútur eftir það.

Látið vatnið renna af kartöflunum, dreifið þeim á eldhúspappír og leyfið þeim að þorna í nokkrar mínútur.

Hitið hnetuolíu í stórum potti þar til hún er orðin 200°C heit.

Bætið sirka 1/3 af kartöflunum út í (jafnvel minna í einu) og steikið í 50 sekúndur. Veiðið kartöflurnar upp úr og látið beint á nýjan eldhúspappír. Endurtakið með afganginn af kartöflunum. Leyfið kartöflunum að kólna í hálftíma.

Á þessu stigi má frysta kartöflurnar og steikja þær svo þegar þeirra er þörf.

Hitið olíuna í 200°C. Steikið kartöflurnar í nokkrum skömmtum þær til þær eru orðnar stökkar og gylltar eða í u.þ.b. 3,5 – 4 mínútur. Setjið þær á eldhúspappír þegar þær eru tilbúnar og saltið strax með sjávarsalti. Borðið strax.

Athugasemdir:

Passið ykkur á því að olían verði ekki of heit og að potturinn sé nógu stór fyrir þetta magn af olíu.

Þegar kaldar kartöflur eru settar út í heita olíu þá bubblar olían og rýs. Eftir því sem olían er heitari og nær brún pottsins þeim mun meiri líkur eru á að hún sjóði upp úr. Það er eitthvað sem maður vill alls ekki.
Athugið líka að setja ekki of mikið af kartöflum í pottinn í einu. Bæði eykur það líkurnar á að sjóði upp úr í fyrstu og lækkar líka hitastig olíunnar hratt.

Aðferðin er fengin frá Serious Eats.

Advertisements

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: