Grillaðar chorizo pylsur með chimichurri

16/07/2012

Aðalréttir

Jæja þá erum við búin að yfirgefa Íslandið góða og komin aftur til Vero. Það var alveg yndislegt að vera heima enda var veðrið svo gott og við náðum að hitta alla margoft en það er svo sem alveg fínt að vera komin aftur út í rólegheitin. Hér er allt eins og við skildum við það nema á einhvern óskiljanlegan hátt er orðið enn heitara og rakara en þegar við fórum og ekki annað hægt en að hafa loftkælinguna stöðugt í gangi. Júlí er sem betur fer heitasti mánuður ársins svo það ætti í raun smá saman að fara kólnandi héðan í frá. Þegar ég segi kólnandi þá meina ég að í október ætti meðalhitinn að hafa lækkað úr 32°C niður í svona 29°C. Oh boy.

Ég ætlaði auðvitað að vera voða dugleg að elda og baka og skrifa þegar ég var heima en einhvernveginn mætti það afgangi. Ég held að við höfum borðað kvöldmat tvö ein heima svona fjórum sinnum á þessum sex vikum sem við vorum á landinu enda var alvega brjálæðislega mikið að gera í félagslífinu. Mig langar nú samt að deila með ykkur einni hugmynd að aðeins öðruvísi grilluðum pylsum sem eru ágætis tilbreyting frá gömlu góðu SS pylsunum.

Ég byrjaði á því að útvega mér þessar fínu chorizo pylsur hjá Pylsumeistaranum við Hrísateig (hinum megin við götuna frá Frú Laugu). Ef þið hafið ekki heimsótt Pylsumeistarann þá hvet ég ykkur eindregið til að gera það sem allra fyrst. Þar fást kynstrin öll af pylsum og besta beikon á höfuðborgarsvæðinu sem er handskorið á staðnum. Virkilega gott allt saman.

Gunnar grillaði pylsurnar og rauðlauk þar til allt var orðið eldað í gegn og pínu sprungið og svart (því þannig er það best).

Ég gerði chimichurri sósu í mortélinu með því að lemja allskonar dót saman (uppskrift fylgir). Þetta chimichurri er kannski ekki alveg hefðbundið því ég setti reykta papriku í það en það var sko alveg ótrúlega gott. Ég elska chimichurri og það er sko ekki síðra með kolagrillaðri nautasteik.

Rauðlaukurinn fer í botninn á léttgrilluðu litlu baguette brauði, pylsan ofan á og svo hellingur af chimichurri. Það má líka borða pylsuna brauðlausa með lauknum, sósunni og salati eins og ég gerði! :)

Chimichurri

2 hvítlauksrif
Væn handfylli af steinselju (u.þ.b. 1 bolli)
Væn handfylli af kóreander (u.þ.b. 1 bolli)
1/2 bolli extra virgin ólífuolía
1,5 msk hvítvínsedik
1-2 tsk sjávarsalt í flögum (eða helmingi minna af borðsalti)
1 tsk reykt paprika
Nýmulinn pipar

Saxið steinselju og kórender smátt niður. Merjið hvítlaukinn með hvítlauskpressu eða í mortéli. Blandið öllu saman. Saltið og piprið eins og þarf.

Advertisements
, , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

No comments yet.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: