Ananas- og rommkaka á hvolfi

19/06/2012

Kökur

Það er freistandi að láta eins og ég hafi slett í þessa köku án þess að blikka auga en ég verð að viðurkenna að það gekk allt á afturfótunum hjá mér við baksturinn í gær. Ég var með saumaklúbb og eftir að hafa eytt næstum klukkutíma í síðdegisbrjálæðinu í Fjarðarkaupum þá kom ég heim upp úr fimm bæði pirruð og í tímaþröng.

Ég byrjaði strax á kökunni en var svo utan við mig að ég þeytti bara smjörið og hellti svo eggjunum beint út í án þess að þeyta sykurinn saman við fyrst. Ég vil ekki einu sinni segja ykkur hvað ég horfði lengi ofan í hrærivélarskálina í forundran yfir kekkjóttu “deiginu” áður en ég fattaði hvað ég hafði gert. Það var ekkert annað að gera en að henda öllu og byrja upp á nýtt.

Ég skar niður mýksta ananasinn sem ég fann í búðinni en hann var samt of súr. Ég reyndi að svekkja mig ekki of mikið á því og hélt ótrauð áfram.

Í uppskriftinni var talað um að baka kökuna í “cast iron” pönnu (þungri svartri pönnu) en þar sem ég á enga svoleiðis hérna á Íslandi þá varð gamla góða smelluformið úr IKEA að duga. Ég smurði það vel, setti smjörpappír í botninn, hellti karamellunni í, raðaði ananassneiðunum ofan á og lagði til hliðar. Fimm mínútum seinna var karamellan farin að leka út um glufurnar í smelluforminu og á borðið. Dæs.

Ég skellti bökunarplötu undir formið og öllu saman inn í ofn og reyndi að hugsa ekki um það hvað það yrði bölvanlegt að þrífa brennda karamellu af bökunarplötunni. Sléttum 45 mínútum seinna kíkti ég inni í ofninn og sá að kakan var aaaaalveg við það að brenna. Úbbs já alveg rétt, ofninn okkar er ofvirkur.

Á þessum tímapunkti var klukkan orðin sjö og stelpurnar að koma klukkan átta. Ég hafði nákvæmlega enga trú á því að kakan myndi losna fallega úr forminu eða að karamellan væri óbrennd. Ég hef líka alltaf verið viss um að svona kökur á hvolfi séu dæmdar til að mistakast og í huganum var ég farin að búa til vöfflur til að bæta upp fyrir ónýta kökuna. Ég dró því djúpt andann, taldi upp að þremur og hvolfdi kökunni á disk og vitið þið bara hvað? Hún losnaði frá eins og ekkert væri og var eiginlega bara nokkuð fullkomin! Okkur stelpunum fannst hún ofboðslega góð með þeyttum rjóma og það var satt að segja ekkert voðalega mikið eftir af henni. Niðurstaðan er því sú að þetta er svo auðveld og einföld kaka að hún er unaðslega góð þó allt gangi á afturfótunum :)

Ananas- og rommkaka á hvolfi

Í toppinn þarf:

1/2 miðlungsstór ananas
85 g smjör
3/4 bolli pálmasykur

Í kökuna þarf:

1 1/2 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt í flögum (eða 1/4 tsk borðsalt)
85 g mjúkt smjör
1 bolli pálmasykur
2 stór egg
1 tsk vanilludropar
1 msk dökkt romm
1/2 bolli ananassafi

Hitið ofninn í 175°C.

Til að gera það sem fer á toppinn:

Fjarlægið kjarnann úr ananasinum og skerið niður í nokkuð stóra bita. Bræðið smjör í potti og bræðið svo pálmasykur saman við. Takið karamelluna af hitanum þegar hún er farin að þykkna og hellið í botninn á bökunarformi sem er búð að smyrja vel og setja bökunarpappír í botninn á. Raðið ananasinum ofan á karamelluna.

Til að gera kökuna:

Þeytið smjör þar til það er orðið ljóst. Bætið sykri þá saman við og þeytið vel. Bætið eggjum út í, einu í einu, og hrærið vel á milli. Hrærið vanilludropum og rommi saman við.

Sigtið hveiti, lyftiduft og salt saman. Hrærið helmingnum af hveitiblöndunni saman við deigið, þá ananassafanum og að lokum restinni af hveitiblöndunni. Ekki hræra deigið of mikið saman heldur aðeins þannig að það rétt blandist saman.

Hellið deiginu varlega ofan á ananasinn í bökunarforminu og sléttið það svo það verði jafnþykkt allstaðar. Bakið í u.þ.b. 45 mínútur eða þar til kakan er tilbúin. Leyfið kökunni í að standa í 5 mínútur og hvolfið henni svo á disk. Það er eflaust mjög gott að setja aðeins meira romm yfir kökuna á meðan hún er enn heit.

Athugasemdir:

Ég notaði pálmasykur því ég vil ekki borða venjulegan sykur og hann er með lágt GI index. Í upprunalegu uppskriftinni er ljós púðursykur í karamellunni og venjulegur hvítur sykur í kökunni sjálfri.

Kakan er rosalega góð volg með þeyttum rjóma.

Uppskriftin er mjög lítillega aðlöguð frá Smitten Kitchen.

Advertisements
,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

4 Comments on “Ananas- og rommkaka á hvolfi”

  1. Martha Says:

    Staðfesti það að kakan var mjög gómsæt :) Takk fyrir mig!

    Reply

  2. Heiða Halls Says:

    Þetta var allt dásamlegt hjá þér í gær Kristín mín!! Þú hugsar fyrir öllu ;) Takk fyrir mig :)

    Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: