Tómata- og paprikusúpa

25/04/2012

Súpur

Ég þarf að játa dálítið. Það er súpujátning. Málið er nefnilega að ég borða súpu í hádeginu á næstum hverjum einasta virka degi. Ekki nóg með það heldur eru það aðkeyptar súpur sem ég kaupi í deli deildinni í Publix. Þær er tilbúnar í plastdalli sem er hægt að stinga beint í örbylgjuofninn. 1,5 mín, hræra, 1,5 mínútur, borða yfir tölvunni.

Þetta er kannski ekki alveg jafn slæmt og það hljómar. Jú þetta eru tilbúnar súpur en þær bragðast mjög vel og það mikilvægasta er að ég skil allt í innihaldslýsingunni (ekki sjálfgefið í Ameríku). Kjúklingur, baunir, laukur, tómatar… það eru orð sem ég skil!

Þó tilbúnu súpurnar séu ágætar þá gerði ég súpu á sunnudagskvöldið sem slær þær nú engu að síður algjörlega út. Það besta er að það er lítið minni fyrirhöfn að útbúa hana heldur en að stinga tilbúinni súpu inn í örbylgjuofn. Skammturinn dugði okkur Gunnari í kvöldmat og mér í hádeginu í tvo daga.

Í súpuna þarf paprikur, tómata, hvítlauk, lauk, ólífuolíu, salt, pipar og kraft (og mögulega rjóma en hann vantar á myndina).

Þetta gæti í alvöru ekki verið einfaldara. Setjið allt grænmetið á bökunarplötu, saltið og piprið og látið smá ólífuolíu yfir allt saman. Ég skar ofan af hvítlauknum og skar paprikurnar og laukinn í tvennt.

Ég er algjör sökker fyrri tómötum á stilknum. Þeir eru svo fallegir!

Setjið inn í 200°C heitan ofn og eldið í u.þ.b. 45 mínútur eða þar til grænmetið er allt gegnsteikt og farið að brúnast aðeins.

Þá er í raun bara eftir að mauka grænmetið, hita upp og krydda. Það á að vera hægt að nota bæði töfrasprota og blandara til að mauka grænmetið. Ég notaði blandara og þurfti að mauka í tveimur skömmtum. Leyfið grænmetinu að kólna talsvert áður en þið maukið því svona mikið magn af heitu grænmeti í blandara getur endað illa.

Hellið maukinu í pott og hitið upp. Bætið krafti og rjóma út í. Saltið og piprið eftir smekk. Það er rosalega gott að bera súpuna fram með smá sýrðum rjóma.

Tómata- og paprikusúpa
Fyrir 4

10 stórir tómatar
2 paprikur
1 laukur
2 hvítlaukshöfuð
1-2 msk óífuolía
1-2 teningar grænmetiskraftur
150 ml rjómi eða matreiðslurjómi (má sleppa)
Salt
Pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið toppinn af hvítlauknum. Skerið laukinn í tvennt. Skerið paprikurnar í tvennt og fjarlægið fræin.

Setið allt grænmetið á bökunarplötu. Saltið, piprið og dreifið ólífuolíu yfir. Stingið inn í ofn og eldið í 45 mínútur eða þar til allt grænmetið er gegnsteikt og aðeins farið að brúnast.

Leyfið grænmetinu að kólna.

Kreistið hvítlauksgeirana úr hýðinu, losið laukinn úr sínu hýði og fjarlægið tómatana af stilknum ef það á við. Maukið grænmetið. Ef notaður er töfrasproti er hægt að setja grænmetið beint í pott og mauka það þar. Ef notaður er blandari þá er best að mauka grænmetið í nokkrum skömmtum og hella svo í pott.

Hitið súpuna að suðu. Bætið rjóma út í ef hann er notaður og krafti líka. Byrjið á að setja einn tening af krafti og smakkið svo súpuna til að athuga hvort það þurfi meira. Það er auðveldara að bæta salti í en taka það úr! Saltið og piprið eftir smekk.

Gott er að bera súpuna fram með sýrðum rjóma og örlítið af nýmuldum pipar.

Athugasemdir:

Ég veit að þetta lítur út fyrir að vera alveg óheyrilega mikið magn af hvítlauki. Tveir heilir hausar! Ef hvítlaukur er bakaður í hýðinu þá verður hann mjög bragðmildur og sætur. Það er alls ekki hvítlauksbragð af súpunni en hvítlaukurinn er algjörlega nauðsynlegur til að gefa henni dýpra og flóknara bragð.

Ég setti rjóma í súpuna því mér finnst hann setja punktinn yfir i-ið en það má að alveg sleppa honum. 150 ml af rjóma bæta u.þ.b. 130 hitaeiningum í hvern skammt af súpu en hún er tiltölulega hitaeiningasnauð fyrir. Ég sleppti frekar brauðinu sem margir borða með súpu en það er nú kannski ekki að marka mig því ég borða almennt svo lítið brauð. Já svo má auðvitað líka nota matreiðslurjóma sem er með helmingi færri hitaeiningar en venjulegur rjómi.

Advertisements
,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

5 Comments on “Tómata- og paprikusúpa”

 1. Heiða Halls Says:

  umm..umm…ummmmmmmmmmmmm!!!!!!! ,,læka” þetta ;)

  Reply

 2. Hanna Jóna Says:

  Þetta lítur svo svo svo svo vel út að ég er búin að kaupa “allt” inn í þetta og ætla að prufa þetta í kvöldmatinn, get ekki beðið!
  ps. er svo mikið að fíla það hvernig þú lætur allt líta út fyrir að vera einfalt, ég forðast allt sem lítur út fyrir að vera pínu flókið, þarf ekki mikið til hehe

  Reply

  • kgroa Says:

   Jeijj frábært, ég vona að þú verðir ekki fyrir vonbrigðum! Ég skil líka algjörlega þetta með að vilja hafa hlutina einfalda. Stundum er maður kannski stemmdur í það að gera eitthvað flókið en í 95% tilfella er maður að elda kvöldmat eftir vinnu og vill bara eitthvað gott og fljótlegt og einfalt.

   Reply

 3. kristjanagudjonsdottir Says:

  Je minn eini, ég slefa bara yfir myndunum af grænmetinu á plötunni. Girnó girnó girnó! Ég er að pæla í að redda mér töfrasprota eða blender á morgun bara til að geta gert svona í kvöldmatinn.

  Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: