Súkkulaðiformkaka með kaffi og sýrðum rjóma

23/04/2012

Kökur

Ég ætlaði svo aldeilis að nýta heimsókn tengdaforeldra minna í það að baka allskyns góðgæti sem ég borða ekki sjálf. Er skrítið að mér skuli finnast skemmtilegra að baka en að borða afraksturinn? Hmm. Það endaði nú þannig að það eina sem ég bakaði voru Babycakes kanilmuffins sem voru sykurlaus og allslaus og eiginlega ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég eldaði samt fullt af góðum mat handa tengdó en ég segi ykkur aðeins betur frá því seinna í vikunni.

Gærdagurinn var letilegur sunnudagur eins og þeir gerast bestir og við gerðum mest lítið. Við afrekuðum þó að fara í Walmart sem er alltaf jafn skemmtilegt, þó ekki nema bara fyrir allt skrítna fólkið sem er þar. Ég sver að það er annar þjóðflokkur sem verslar í Walmart. Það er nú reyndar efni í aðra færslu.

Á letilegum sunnudögum finnst mér alveg tilvalið að baka köku því þá hef ég nægan tíma og get dundað mér við það í rólegheitum. Mér finnst sunnudagskaka líka eiga að vera tilgerðarlaus og blátt áfram.  Formkökur eru dæmigerðar sunnudagskökur í mínum huga og þegar ég skrifa þetta þá langar mig skyndilega mikið í mömmubakaða döðluköku eða jólaköku. Það eru sko sunnudagskökur í lagi. Þessi kaka er dálítið svipuð því hún er látlaus og fljótleg. Kremið ofan á gerir hana samt pínu sérstaka.

Í kökuna þarf sykur (eða gervisykur), hveiti, olíu, sýrðan rjóma, kakó, matarsóda, PAM (eða smjör), salt, egg og sterkt kaffi.

Byrja á að blanda kaffi og kakói saman. Þeyta svo saman egg og sykur þar til orðið létt og ljóst og hræra þá sýrðum rjóma og olíu saman við. Blanda þurrefnum saman í þriðju skálinni. Blanda eggjablöndunni vel saman við þurrefnin og loks kaffiblöndunni.

Setja í vel smurt bundt form (eða annað hringlaga form) og baka! Ég sleppti mér kannski aðeins í PAM-inu en það er fátt verra en formkaka sem vill ekki losna úr forminu.

Leyfa kökunni að kólna aðeins og svo er að ná henni úr forminu. Krossa fingur… einn tveir og…

Þrír! Ekkert mál :)

Þá er það kremið. Í það þarf súkkulaði, smjör, sterkt kaffi og sýrðan rjóma.

Súkkulaði og smjör brætt yfir vatnsbaði. Kaffi blandað saman við og loks sýrðum rjóma.

Þá er að setja kremið á. Ég sá þetta frábæra ráð í þætti hjá Inu Garten. Þegar maður ætlar að setja krem á köku er gott að setja hana beint á diskinn sem á að bera hana fram á en stinga bútum af bökunarpappír undir svo diskurinn sé alveg þakinn. Þá sullast ekkert á diskinn og svo er ekkert mál að fjarlægja bökunarpappírinn eftir á.

Fjarlægja pappírinn.

Jömmí! Hrikalega góð með mjólkurglasi eða bolla af sterku kaffi.

Súkkulaðiformkaka með kaffi og sýrðum rjóma

Í kökuna þarf:

1 1/4 bolli heitt kaffi
1 bolli kakó
2 1/2 bolli hveiti
1 1/4 tsk salt
2 1/2 tsk matarsódi
2 bollar hvítur sykur (eða gervisykur)
3 stór egg
1 1/4 bolli 18% sýrður rjómi
1 bolli + 2 msk grænmetisolía (ég notaði canola)

Í kremið þarf:

170 g smjör (helst ósaltað)
170 g suðusúkkulaði
4 msk kaffi
1/3 bolli 18% sýrður rjómi

Hitið ofninn í 175°C. Smyrjið 10″ hringlaga bökunarform vel og þekjið með lausu hveiti (eða sprautið PAM í formið).

Til að gera kökuna:

Þeytið heitt kaffi og kakó saman í skál þar til blandan er mjúk og laus við kekki. Setjið til hliðar.

Sigtið hveiti, salt og matarsóda saman í stóra skál. Setjið til hliðar.

Þeytið saman sykur og egg þar til þykkt og ljóst. Bætið sýrðum rjóma og olíu út í og þeytið varlega þar til vel blandað saman.

Bætið allri eggjablöndunni varlega saman við þurrefnin. Þegar ekkert laust hveiti sést í deiginu skal blanda kaffiblöndunni varlega saman við.

Hellið deiginu í bökunarformið og bakið í 45-60 mínútur eða þar til kakan er tilbúin. Ég þurfti bara að baka hana í 45 mínútur (stakk tannstöngli í hana til að athuga).

Takið kökuna úr ofninum og leyfið henni að kólna í forminu í 20 mínútur. Hvolfið henni svo yfir á grind og leyfið henni að kólna algjörlega áður en kremið er sett á.

Til að gera kremið:

Bræðið smjör og súkkulaði saman í skál yfir vatnsbaði.

Takið skálina af hitanum og leyfið að kólna aðeins. Hrærið 2 msk af kaffinu saman við, svo sýrða rjómanum og loks seinni 2 msk af kaffinu.

Á þessu stigi var kremið mjög þunnt hjá mér svo ég stakk því inn í ísskáp til að stífna og þéttast aðeins. Passið samt að hræra reglulega í því í ísskápnum svo það stífni jafnt.

Dreifið kreminu á kökuna með flötum hníf eða pönnukökuspaða.

Athugasemdir:

Þetta var frumraun mín í því að nota Splenda gervisykur í stað sykurs í bakstur. Ég hafði ekkert rosalega mikla trú á því að það myndi heppnast en kakan hegðaði sér algjörlega eins og venjuleg kaka.

Ég notaði jafnmikið rúmmál af gervisykri og uppskriftin tiltók að ætti að nota af venjulegum sykri. Gunnari fannst að kakan mætti vera sætari en mér fannst hún hæfilega sæt. Þetta skrifast væntanlega algjörlega á það að ég notaði gervisykur og ef þið notið venjulegan sykur þá ætti hún að vera nógu sæt fyrir alla.

Ef þið hafið enga ástæðu til að forðast það að borða sykur þá skulið þið endilega nota sykur því kakan er eflaust enn betri þannig!

Uppskriftin er fengin úr Joy the Baker Cookbook (Chocolate Bundt Cake With Chocolate Sour Cream Glaze). Ég skipti sykri út fyrir gervisykur og súkkulaði út fyrir sykurlaust súkkulaði en annað er óbreytt.

Advertisements

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

4 Comments on “Súkkulaðiformkaka með kaffi og sýrðum rjóma”

 1. Rósa Says:

  æ nú langar mig sjúklega í þessa köku :(

  Reply

 2. kristjanagudjonsdottir Says:

  Namm! Þetta hljómar ótrúlega vel – ég styð sýrðan rjóma í kökum. Held ég fari að þínu fordæmi og prófi svona næsta sunnudag :)

  Reply

  • kgroa Says:

   Já sýrður rjómi er geðveikt góður í kökur. Ég held að þú eigir eftir að fíla þessa köku því það er líka dálítið kaffibragð af henni ;)

   Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: