Salat með ísraelsku kúskús og kjúklingi

21/04/2012

Aðalréttir, Salat

Við keyrðum til Fort Lauderdale í morgun og kvöddum foreldra hans Gunnars táreygð á flugvellinum. Eins og það er nú yndislegt að fá fólk í heimsókn þá er hræðilega erfitt að kveðja. Ég sver að ég er strax farin að kvíða því að kveðja mömmu og pabba þegar við förum aftur frá Íslandi í sumar. Já ég er pínu dramatísk.

Við gerðum lítið annað í dag en að keyra niður eftir og til baka. Við notuðum reyndar tækifærið úr því við vorum í aðeins meiri siðmenningu en vanalega (þó Fort Lauderdale hafi engan veginn virkað vel á mig) og komum við í Whole Foods. Ég fríkaði pínu út og fannst ég verða að kaupa allt sem er erfitt að fá hérna jafnvel þó ég hafi enga þörf fyrir það. $12 krukkan af mísó mauki fékk nú samt sem betur fer að vera eftir í hillunni þó mér hafi eitt andartak fundist ég VERÐA að eignast hana.

Það má þó segja að Whole Foods hafi veitt mér innblástur því ég keypti ísraelskt kúskús og fallegar ólífur og gerði úr þeim salat í kvöldmatinn. Við vorum þreytt og orkulaus eftir ferðalagið og það var æðislegt að geta hent þessum ljúffenga kvöldmat saman á innan við hálftíma. Það besta er að við eigum svo mikinn afgang og salatið hentar fullkomnlega í hádegismat á morgun (og hinn!).

Í salatið þarf kjúkling, salt, pipar, ólífuolíu, sinnep, edik, ísraelskt kúskús, hvítlauk, rauðlauk, fetaost, ólífur, steinselju, basil, kirsuberjatómata. Sjá uppskrift til að sjá uppástungur varðandi það að sleppa/skipta út hráefni.

Það er varla að ég þurfi að útskýra hvað þarf að gera því þetta er svo einfalt. Olía, sinnep, edik þeytast saman. Kúskús er soðið. Allt annað er skorið smátt niður. Öllu er blandað saman. Ekki gleyma að salta og pipra!

Það er einfalt að ná steinum úr ólífum því maður verkar þær bara eins og hvítlauksrif. Hnífinnn ofan á og lemja!

Eftir það er einfalt að ná steininum úr.

Litríkur matur er bragðgóður matur.

Mmm kjúklingur (og mmm kjúklingahúð).

Ferkst, gott, saðsamt og fljótlegt!

Salat með ísraelsku kúskús og kjúklingi
Fyrir 6

2 bollar ísraelskt kúskús (eða smátt pasta)
1 steiktur kjúklingur
1/4 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
3/4 bolli fetaostur í teningum
1/2 bolli ólífur
1 askja kirsuberjatómatar (eða samsvarandi magn af venjulegum)
Handfylli af steinselju
Hálf handfylli af basil (má sleppa)
4 msk ólífuolía
2 msk eplaedik (má nota hvítvíns- eða rauðvínsedik)
2 msk sinnep
Salt
Pipar

Sjóðið kúskús í söltuðu vatni eins og þið væruð að sjóða pasta. Það þarf ekki nema sirka 5 mínútur eða þar til það er orðið al dente. Látið vatnið renna af kúskúsinu.

Saxið rauðlauk, hvítlauk og ólífur niður frekar smátt. Skerið kirsuberjatómata í fjóra hluta. Saxið kryddjurtir frekar smátt.

Pískið ólífuolíu, edik og sinnep saman.

Rífið kjúkling niður í hæfilega bita.

Blandið öllu hráefni saman. Saltið og piprið duglega.

Athugasemdir:

Ísraelskt kúskús er einhverskonar blanda af kúskúsi og pasta. Í raun eru þetta pínulitlar pastakúlur. Það á að vera hægt að fá það  á Íslandi (ég hef fengið það í mötuneytinu í vinnunni) en ég veit ekki hvar það fæst. Allt smátt pasta væri líka mjög gott í þetta salat og orzo eða lítið macaroni kemur fyrst upp í hugann.

Það má að sjálfsögðu alveg nota venjulega tómata í staðinn fyrir kirsuberjatómata.

Ég notaði blöndu af kalamata, grænum og þurrkuðum ólífum af því ég missti mig í ólífubarnum í Whole Foods. Það er oft hægt að fá bæði kalamata og þurrkaðar ólífur í Búrinu en notið endilega bara þær ólífur sem þið viljið. Já eða bara sleppið þeim ef ykkur finnst ólífur vondar.

Ég setti smá basil af því ég átti það til en það þarf alls ekki. Varðandi steinseljuna þá er ég með mikið óþol fyrir flatlaufssteinseljusnobbinu í öllum matreiðsluþáttum og matreiðslubókum. Ég notaði reyndar flatlaufssteinselju en mér finnst krullusteinseljan líka rosalega góð.

Ég skammast mín pínu fyrir að hafa notað amerískt pylsusinnep í réttinn en dijon sinnepið var búið og ég átti þetta í ísskápnum. Notið endilega betra sinnep :)

Ég notaði steiktan kjúkling úr búðinni enda var hugmyndin á bak við þennan rétt umfram allt þægindi.

Advertisements
, , , ,

Subscribe

Subscribe to our RSS feed and social profiles to receive updates.

5 Comments on “Salat með ísraelsku kúskús og kjúklingi”

 1. Helgi Says:

  :-) snilld

  Reply

 2. Heiða Halls Says:

  Geðveikt girnó!!! Maður á ekki að skoða þessa síðu svona rétt fyrir hádegismat….skyr og hrökkbrauð hljómar ekkert allt of vel eftir þessa lesningu…
  Ætla að prufa þetta við tækifæri :)

  Reply

 3. Rósa Says:

  NÆæææææææs, það má sem sagt sleppa ólífunum…..hjúkket :D

  Reply

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: